Kallað eftir raunhæfum leiðum til förgunar á dýrahræjum
Heilbrigðiseftirlit Norðurlands vestra tekur undir sjónarmið Landbúnaðarráðs Húnaþings vestra frá 21.mars um nauðsyn þess að koma á raunhæfum leiðum um land allt, til förgunar á dýrahræjum, en bókun ráðsins má sjá hér að neðan :
Landbúnaðarráð undrast að MAST skuli vísa þessu máli alfarið á eitt sveitarfélag, Húnaþing vestra og Heilbrigðiseftirlit Norðurlands vestra þar sem stjórnvöld hafa verið með þessi mál til úrlausnar um áratuga skeið. Umhverfisráðuneytið skipaði starfshóp 13. júlí 2012 sem fjallaði um lausnir fyrir áhættusaman sláturúrgang og dýrahræ og átti að finna lausnir sem myndu virka og ganga jafnt yfir alla. Starfshópurinn skilaði af sér skýrslu þann 4. desember sl. Í stuttu máli þá mælir starfshópurinn með að allur dýraúrgangur þ.e. dýrahræ og sjálfdauð dýr, verði brenndur. Aðeins ein brennslustöð er á landinu, Kolka, en þar var hætt að taka á móti dýraleifum til brennslu þar sem mikil vandkvæði fylgja förgun í stöðunni. Því er ljóst að úrræði eru engin. Ekki má urða og ekki er aðstaða til að brenna!
Landbúnaðarráð beinir því til atvinnu- og nýsköpunarráðherra að fundin verði lausn á málinu sem allra fyrst, lausn sem hægt er að framfylgja. Vinnubrögð Mast eru hörmuð, en ekki virðist unnið eftir samræmdum og skýrum reglum heldur spjótum beint tilviljanakennt að einstaka sveitarfélögum. Einnig rætt um hvaða þjónustu önnur sveitarfélög eru að veita varðandi dýrahræ. Bent var á tvær leiðir sem farnar eru í sveitarfélögum þar sem einn gámur er til staðar fyrir dýrahræ í hvoru sveitarfélagi. Annars vegar að lagt sé fast gjald á hvert bú og hins vegar að rukkað sé gjald fyrir hvert dýr skv. forðagæsluskýrslu. Í báðum tilfellum eru hræin urðuð. Í Húnþingi vestra eru fjögur varnarhólf vegna búfjársjúkdóma og þar með ólöglegt fyrir bændur að flytja hræ á milli hólfa. Því þarf að lágmarki 5 – 6 gáma í sveitarfélaginu og ljóst að hvor leiðin sem verður farin þá mun kostnaður verða verulega íþyngjandi fyrir bændur og sveitarfélagið.