Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögum sem tengjast fiskeldi  

Hér má að neðan má lesa umsögn um fyrirhugaðar breytingar á á lögum sem tengjast fiskeldi, en umsögnin var samin með nokkrum hraði, þar sem tímaramminn var knappur. Það er mikilvægt að lagabreytingarnar fái vandaða umfjöllun en um er að ræða vaxandi atvinnugrein, sem gæti haft víðtæk áhrif vítt og breitt um landið.

 

Hofsósi, 9. febrúar 2018
 
 
 
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið
 
 
 
Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi
 
 
Frumvarpið felur í sér miklar breytingar á leyfisveitingum fyrir fiskeldi og umgjörð um atvinnugreinina sem er vaxandi á landinu. Það hefði farið betur á því ef frumvarpið hefði verið sent til heilbrigðisnefnda sveitarfélaga til umsagnar, en undirritaður vissi ekki af tilvist frumvarpsins fyrr en örfáum dögum áður en umsagnarfrestur um frumvarpið rann út. 
 
Vel að merkja, heilbrigðisnefndir sveitarfélaga fara með hollustu- og mengunarvarnareftirlit heima í héraði sbr. lög nr 7/1998 og höfðu eftirlit með fiskeldi allt til ársins 2015.
 
Ósk Samtaka Heilbrigðiseftirlita á Íslandi (SHÍ) um að framlengja fresti til þess að skila inn umsögn um frumvarpið hefur var synjað og er því umsögnin ekki jafn ítarleg og efni standa til.
 
 
Það eru örfá ár síðan síðast voru talsverðar breytingar á leyfisveitingu og eftirliti með fiskeldi. Með breytingunum sem gerðar voru árið 2014, þá færðist allt eftirlit með fiskeldi til ríkisstofnananna UST og MAST, sem áður hafði verið hjá Heilbrigðisnefndum sveitarfélaga. Það var gert með það að markmiði að það myndi leiða til einföldunar og væri til hagræðis fyrir atvinnugreinina, að UST sæi um alla útgáfu starfsleyfa og MAST tæki að sér eftirlit í umboði UST. Það hefði verið eðlilegt að gera úttekt á reynslunni af breyttu verklagi – hvað hefði gengið vel og hverju þyrfti að breyta áður en nýtt frumvarp sem hér er til umsagnar væri lagt fram um breytt verklag við eftirlit og leyfisveitingu.
 
 
Það er ljóst að þær breytingar sem gerðar voru árið 2014 leiddu af sér gríðarlegan kostnaðarauka fyrir minni fiskeldisfyrirtæki sem voru áður undir eftirliti heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga. Dæmi er um að eftirlitsgjald lítils bleikjueldisfyrirtækis sem var enn á frumstigi hækkaði úr 22 þús. kr. og í 187 þús. kr. á ári. Við fyrstu sýn á frumvarpinu, þá virðist sem ekki sé horft til þarfa lággróðursins í atvinnugreininni þ.e. lítilla bleikjueldisstöðva, fiskeldi í tengslum við gróðurhús og umfangslítils eldis í rannsóknaskyni á borð við eldi Háskólans á Hólum.
 
 
Í 9. gr. frumvarpsins er boðað að í stað þess að gefið verði út formlegt starfsleyfi, sem almenningur, umsækjandi og þeir sem telja sig málið varða geti gert athugasemd við, þá verði nægjanlegt að tilkynna til Umhverfisstofnunar að eldið hafi tekið til starfa. Umrædd skráning í stað formlegs starfsleyfis fyrirtækja er nýbreytni sem kom inn með breytingum á lögum nr. 7/1998 á árinu 2017 og var fyrst og fremst hugsað til hagræðis fyrir minniháttar starfsemi á borð við snyrti- og hárgreiðslustofur, en alls ekki fyrir umfangsmikla starfsemi. Ásamt því að boða skráningu er jafnframt áformað samráð við Umhverfisstofnun um skilyrði rekstrarleyfis og að það verði síðan auglýst. Ferlið sem er boðað við útgáfu rekstrarleyfis er ekki fastmótað og hætt er við að breytingin verði talin brot á Árósasamningnum um að tryggja aðkomu almennings að ákvarðanatöku í umhverfismálum. Þessi breyting getur valdið óvissu um hvernig eigi að fara með kærur um innihald rekstrarleyfisskilyrða sem snúa að umhverfismálum. Munu þær kærur fara eftir kæruleiðum Umhverfisráðuneytisins eða Atvinnuvegaráðuneytisins. Það gilti einu hvor leiðin væri valin – leiðin yrði stjórnsýsluleg ófæra!
 
Þó svo ekki hafi gefist færi á að veita SHÍ lengri frest til þess að koma fram með formlegar athugasemdir við frumvarpið, þá er áfram boðin fram aðstoð við vinnu við frumvarpið áður en það  fer í sína endanlegu mynd. Það skiptir afar miklu máli að ríkt samráð verði haft við sveitarfélögin og stofnanir þeirra við umgjörð fiskeldis enda þarf að taka tillit til fjölmargra þátta á borð við skipulag hafna, fráveitu og þynningarsvæða og vatnsöflunnar.
 
Virðingarfyllst 
 
Sigurjón Þórðarson 
ritari SHÍ