Afnám eftirlits með heimagistingu og fjölgun snyrtinga á veitingahúsum
Þann 21.júní sl. voru gerðar breytingar á reglugerð um hollustuhætti nr. 941/2002 og tóku breytingarnar gildi strax við birtingu reglugerðarinnar. Meginefni breytinga umhverfisráðherra á reglugerð um hollustuhætti fela í sér útfærslu á nýsamþykktum lögum um að rýmka reglur um heimagistingu. Ekki er lengur gert ráð fyrir reglulegu eftirliti né starfsleyfi Heilbrigðisnefnda sveitarfélaga. Breytingarnar náðu einnig til fleiri þátta m.a um aukinn fjölda salerna á veitinga og samkomuhúsum. Það gerðist með þeim hætti að felld voru á brott ákvæði í hollustuháttareglugerðinni um fjölda snyrtinga sem voru vægari, en kröfur sem er að finna í byggingarreglugerð. Nú standa því eftir ákvæði byggingarreglugerðarinnar sem geta kallað strax á umtalsverðar breytingar á innréttingu veitinga- og samkomuhúsa.
Dæmi um áhrif breytinganna:
1) Lítið kaffihús með 4 borðum fyrir um 20 gesti þarf nú að bjóða gestum upp á 2 salerni, en fyrir breytingarnar var 1 salerni nægjanlegt.
2) Skyndibitastaður með 12 borðum fyrir um um 60 gesti þarf nú að bjóða upp á 4 salerni, en fyrir breytingarnar voru 2 salerni nægjanleg.
3) Stór veitingastaður fyrir um 200 manns þarf nú að bjóða upp á 9 salerni, en fyrir breytingarnar voru 4 salerni nægjanleg.