Fyrirspurnir vegna húsnæðis Ársala við Víðigrund á Sauðárkróki
Heilbrigðiseftirlitinu hafa borist fyrirspurnir frá foreldrum um húsnæði yngri deildar leikskólans Ársala á Sauðárkróki við Víðigrund. Spurt hefur verið á þá leið hvort að mygla geti verið uppspretta veikinda barna og hvort til standi að loka húsnæðinu.
Heilbrigðiseftirlitið gerði athugun í apríl sl. og gáfu niðurstöður þeirrar athugana tilefni til að álykta að mygla í innilofti sé ekki vandamál í húsnæðinu, sjá niðurstöður. Þess ber að geta að sömu aðferð var beitt til að meta ástand húsnæðis leikskólans á Hofsósi og niðurstöðurnar notaðar til þess ákveða flutning leikskólans í annað húsnæði, nú á vordögum. Sveitarfélagið Skagafjörður hefur ekki látið staðar numið, í athugun á húsnæði Ársala við Víðigrund, við framangreinda athugun Heilbrigðiseftirlitsins. Til þess að ganga úr skugga um að húsnæðið uppfyllti ítrustu kröfur var ákveðið að óska eftir því að verfræðistofan Efla gerði enn frekari athuganir á húsnæðinu. Þær fela m.a. í sér að bora í gegnum húsnæðið og meta ástandið út frá borkjörnum sýnanna. Heilbrigðiseftirlitinu hefur borist greinargerð sveppafræðings um skoðun á 2 borkjörnum, en út frá þeim er ekki tímabært að álykta almennt um ástand húsnæðisins og rétt að bíða eftir frekari niðurstöðum rannsókna Eflu.
Heilbrigðiseftirlitið hefur verið í sambandi við heilbrigðisstarfsfólk á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Sauðárkróki og mun óska eftir samráði við það um framhald málsins.
Mikilvægt er að hafa það í huga að börn á leikskólum og dagheimilum eru tvisvar til sjö sinnum oftar veik en börn sem eru heima hjá sér. Börn á aldrinum hálfs árs til 2. ára eru veik að meðaltali 24 daga á ári. Erlendar rannsóknir hafa gefið til kynnað að með betri handþvotti á leikskólum væri hægt að fækka sjúkdómstilfellum um 34%.