Nýjar reglur um veitinga- og gististaði

Gefin hefur verið út, ný reglugerð nr. 1277/2016 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald á grundvelli breytinga sem gerðar voru á síðasta ári, á lögum nr. 85/2007. Væntanlega verða helstu áhrif reglugerðarinnar, annars vegar einföldun á leyfisveitingu til minnstu gististaðanna þ.e. heimagistingar og hins vegar að auka umsýslu sveitarfélaga við leyfisveitingar og minnka tekjur þeirra.

Heimagisting

Heimagisting er flokkur gististaða, þar sem einstaklingar bjóða upp á gistingu á heimili eða annarri fasteign í eigu viðkomandi og gistinætur eru færri en 90 dagar.

Nú er ekki lengur gerð krafa um formlegt rekstrarleyfi frá sýslumanni, heldur verður öll heimagisting skráningaskyld hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Sýslumaður höfuðborgarsvæðisins hefur einn eftirlit með heimagistingu á landinu m.a. að umfangsmikil starfsemi (gisting í meira en 90 daga) verði ekki rekin undir merkjum heimagistingar.

Ekki er lengur gert ráð fyrir að úttekt fari fram á vegum eldvarnaeftirlits sveitarfélaga, en engu að síður verður óskað eftir að starfsemin hafi starfsleyfi heilbrigðisnefndar sveitarfélaga. Forsenda þess að hægt sé að gefa út leyfi fyrir gististað er að húsnæði hafi verið samþykkt af byggingarnefnd. Æskilegt er að huga að því hvort nægjanlegt sé að byggingafulltrúi eða formaður bygginganefndar sé heimilt að afgreiða mál, þannig að ekki verði óþarfa tafir á að skráning á heimagistingar. Þess ber að geta að samkvæmt upplýsingum úr umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, þá stendur til að leggja fram frumvarp sem felur í sér að fella niður starfsleyfisskyldu heilbrigðisnefndar fyrir viðkomandi starfsemi og hún verði þess í stað skráningarskyld.

Í reglugerðinni kemur fram að heimagisting teljist ekki atvinnuhúsnæði og mun sú breyting því leiða til lækkaðra fasteignagjalda af viðkomandi fasteign, þar sem greidd eru lægri fasteignagjöld af heimilum en atvinnuhúsnæði.

Veitinga- og gististaðir aðrir en heimagisting

Helstu breytingar til einföldunar fyrir rekstraraðila verða, að veitingastaðir án áfengisveitinga, verða ekki háðir rekstrarleyfi sýslumanns, en verða eftir sem áður háðir starfsleyfi heilbrigðisnefndar sveitarfélaga.

Fyrirhugað er að auka kröfur á sveitarstjórnir í umsýslu með umsagnir þ.e. taka saman gögn frá heilbrigðisefnd og byggingafulltrúa og sameina umsögn frá framangreindum aðilum sem síðan verði skilað í einu lagi til sýslumanns. Huga þarf að því að þetta ferli verði aðlagað með haganlegum hætti að mismunandi stjórnsýslu og stærð sveitarfélaga.

Engu að síður er jafnframt gerð krafa um að viðkomandi veitinga- og gististaðir, hafi starfsleyfi heilbrigðisnefndar og skili afrit af starfsleyfinu inn til viðkomandi sýslumanns áður en rekstrarleyfi er veitt.

Rekstarleyfi sýslumanns verða ótímabundin sem mögulega geta hamlað því að hægt verði að grípa inn í  starfsemi skemmti- og gististaða, sem hafa neikvæð áhrif á næsta nágrenni.  Það sem einkum getur orðið viðkvæmt er opnunartími veitingastaða og er því rétt að huga vel að umsögn sveitarstjórnar um fyrirhugaðan afgreiðslutíma staðar, þ.e. á hvaða tíma heimilt er að hafa hann opinn.

Önnur leið væri að tilgreina opnunartíma í starfleyfisskilyrðum heilbrigðisnefndar en þau má endurskoða á 4 ára fresti.

Sigurjón Þórðarson, framkvæmdastjóri, Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra.