Hvað verður um útrunnin matvæli?
Heilbrigðiseftirlitin á Norðurlandi ákváðu að kanna hvað yrði um matvæli sem seljast ekki í verslunum á Norðurlandi, áður en geymsluþolstími rennur út. Til þess að fá greinagóðar upplýsingar um afdrif matvælanna voru matvöruverslanir á Akureyri, Sauðárkróki og Siglufirði heimsóttar auk þess sem rætt var við nokkra birgja verslana á svæðinu.
Niðurstöður voru að ýmiss háttur er hafður á með meðferð útrunnar vöru:
a) Vörum er skilað til birgja og þá eru kælivörur yfirleitt settar í frysti þar til þær eru sendar til baka.
b) Vörur sem renna út er komið í förgun af verslunum og það sem ekki selst er dregið frá reikningi.
c) Vörur eru ekki teknar til baka, nema þá í undantekningartilfellum, t.d. ef mistök verð við merkingu matvæla eða umbúðir eru gallaðar.
Verslanir vilja gjarnan hafa mikið og stöðugt framboð af margvíslegum kjötvörum í kælum til að koma til móts við sína viðskiptavini. Yfirleitt liggja fyrir samningar eða samkomulag milli birgja og verslana um ákveðið verð sem miðast við að verslun geti skilað kjötvöru sem rennur út á tíma. Annar valkostur er að verslun taki sjálf á sig slík áföll og fái á móti afslátt á verði. Þegar um er að ræða samkomulag um að verslun geti skilað útrunninni kjötvöru til birgja; þá er skilavara gjarnan flokkuð í tvo flokka:
Annars vegar er kjötvara sem er með stutt geymsluþol og slíkri vöru er fargað. Kjötbirgjar vilja gjarnan fá slíka vöru inn til sín til förgunar; þannig að ekkert fari á milli mála um afdrif slíkar vöru (að varan fari ekki á flakk).
Hins vegar er vara sem er talin ásættanleg hvað varðar örveruleg gæði og er þá nýtt með ýmsu móti. Dæmi um nýtingu er þegar hangikjöt (sem getur verið með geymsluþol upp á 45 daga) er soðið og nýtt í áleggsvöru. Annað dæmi er grillkjöt sem er fryst (e.t.v. endurmerkt) og selt í mötuneyti. Þekkt er hjá kjötbirgjum að sum mötuneyti sækjast eftir samkomulagi um kaup á útrunninni kælivöru sem hefur verið breytt í frystivöru. Enn annað dæmi eru pylsur og bjúgu sem eru frystar eftir sinn líftíma sem kælivara og síðan seld með afslætti eða gefin til félagasamtaka sem styrkur.
Núgildandi regluverk hefur þá meginreglu að banna að breyta útrunninni kælivöru í frystivöru og opinberir eftirlitsaðilar hafa gert alvarlegar athugasemdir ef vart verður við slíkt athæfi í verslunum. Hugsunin er að koma í veg fyrir að neytendur fái á sitt borð matvöru sem að stenst ekki kröfur um örverufræðileg viðmið og gæði. Líklega hefur þessu ekki verið gefinn næganlegur gaumur þegar um er að ræða útrunna vöru sem er skilað úr verslun til kjötbirgja skv. sérstöku samkomulagi. Eðlilegt er að kanna nánar verkferla hjá kjötbirgjum/kjötvinnslum hvað varðar afdrif á skilavöru m.t.t. gildandi regluverks, örverufræðilegra viðmiða og rekjanleika.
Þau sjónarmið sem eru á lofti eru annars vegar að draga úr matarsóun og hins vegar að hafa í heiðri viðurkennda verkferla sem tryggja heilnæmi og gæði á kjötvörum (neytendavernd). Umræðan um bætta nýtni hefur skilað því að dæmi er um verslanir bjóðiviðskiptavinum upp á stigvaxandi afslátt af matvörum sem nálgast síðasta söludag.
Þessi mál þarf einnig að skoða í ljósi breytinga sem eru að verða á regluverki með innleiðingu á Evrópskri matvælalöggjöf.
Hugmyndir eru uppi um að e.t.v. megi koma til móts við fyrrnefnd sjónarmið með því að leyfa merkingar sem gefi kost á að breyta valinni kælivöru í frystivöru á tilteknum tímapunkti á geymsluþolstíma vörunnar, t.d. þannig að þegar liðinn er 80% af líftíma kælivöru; þá megi verslun breyta vörunni í frystivöru. Þannig megi koma í veg fyrir matarsóun og jafnframt tryggja ákveðin lagmarksgæði og öryggi vöru. Ljóst er að vanda þarf mjög til reglusetningar og innra eftirlits ef þessi leið verður valin.
Heilbrigðiseftirlitin á Norðurlandi gera að tillögu sinni að Matvælastofnun og Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga hafi með sér enn frekara samstarf um að rýna þá verkferla sem hafa tíðkast hvað varðar skil og nýtingu á kjötvöru og samræmi eftirlit og verklag í opinberu eftirliti.
Alfreð Schiöth framkvæmdastjóri Heilbrigðseftirlits Norðurlands eystra og Sigurjón Þórðarson framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra