Fundur með vatnsveitum á Norðurlandi vestra

Heilbrigðiseftirlitið stóð fyrir fundi meðal umsjónarmanna vatnsveitna á Norðurlandi vestra þann 23. mars sl., þar sem umfjöllunarefnið var innra eftirlit vatnsveitna. Innra eftirlit og öguð vinnubrögð tæknimanna sveitarfélaga er ein helsta forsenda þess að hægt sé að tryggja gæði neysluvatns. Krafa um innra eftirlit kemur ekki einungis úr opinberu regluverki heldur einnig frá matvælaframleiðendum sem þurfa að gera kaupendum skilmerkilega grein fyrir að neysluvatn og starfsemi vatnsveitu uppfylli alla gæðastaðla.

Markmið fundarins var ekki einungis að heilbrigðisfulltrúar kæmu upplýsingum á framfæri en þau Sigríður Hjaltadóttir og Sigurjón Þórðarson voru með stutta kynningu, heldur ekki síður að tæknimenn sveitarfélaganna gætu borið saman bækur sínar. Tæknimenn minni fámennra sveitarfélaga hafa í mörg horn að líta og þurfa sinna margvíslegum verkefnum og því mikilvægt að þróa einfalt og skilvirkt verklag sem tryggir öryggi neysluvatnsins. Gunnar Björn Rögnvaldsson verkefnastjóri hjá Skagafjarðarveitum flutti mjög áhugaverða kynningu á gæðakerfi Skagafjarðaveitna sem hefur verið í þróun í á annan áratug.