Lykt úr fjöru á Siglufirði
Íbúar á Siglufirði hafa kvartað undan mikilli ólykt. Einkum hafa kvartnir komið frá íbúum í sunnanverðum bænum og hafa þeir kennt um fráveituvatni, sem rennur í fjöruborðið um 100 m frá frá vegi. Fjaran sem um ræðir er við Suðurtanga, í krikanum næst Eyrarflöt. Fráveituvatnið sem um ræðir kemur frá um 90 íbúðum, en auk þess rennur í krikann yfirborðsvatn af götum.
Umhverfisfulltrúi og heilbrigðisfulltrúi hafa gert athuganir á hvaðan megnasta fýlan berst úr fjörunni og er það samdóma álit þeirra að það sé innst í krikanum en fráveitulögnin sem um ræðir liggur utar. Í krikanum er að finna þykkt lag af rotnandi þara og er það talsvert frá þeim stað, þar sem útrásin kemur í sjó. Þegar skafið er ofan af yfirborði rotnandi þarans, kemur í ljós kolsvart lag af lífrænum massa sem gefur frá sér megna brennisteinsfýlu. Greinilegt er að lyktin er mest þar sem minnst vatnsskipti eru í fjöruborðinu við Eyrarflöt og kemur að minnstum hluta frá skolplögn. Heilbrigðiseftirlit Norðurlands vestra tók sýni úr fjöruborðinu og verða niðurstöður þeirra kynntar fyrir íbúum og öðrum sem hafa áhuga á þeim.
Umhverfisfulltrúi Valur Þór Hilmarsson er að undirbúa tillögur til úrbóta sem verða lagðar fyrir bæjarráð.
Umhverfisfulltrúi Fjallabyggðar og Heilbrigðiseftirlit Norðurlands vestra hafa gert athugun á fráveitumálum í Fjallabyggð og leiðum til úrbóta í málaflokknum. Sjá má samantekt á niðurstöðum sýnatökum á Siglufirði og Ólafsfirði á heimasíðu Heilbrigðiseftirlitsins www.hnv.is (Sjá Fráveita Fjallabyggð sýnataka við fráveitur og baðstaði 2012). Í framhaldi af gerð samantektarinnar hefur deildarstjóri tæknideildar Fjallabyggðar farið í vinnu við úrbætur m.a. í samráði við Bólholt ehf og er von á framkvæmdaáætlun innan tíðar.
Valur Þór Hilmarsson, umhverfisfulltrúi
Sigurjón Þórðarson, heilbrigðisfulltrúi