Norræn viðurkenning fyrir eftirlitisverkefni með veitingahúsum á Norðurlandi vestra
Á vordögum 2014 var farið í sérstakt eftirlitsverkefni með veitingahúsum á Norðurlandi vestra, í samráði við veitingamenn á svæðinu. Verkefnið var síðan tilnefnt í samkeppni sem eftirlitsverkefni Norðurlandanna. Fram komu verkefni frá öllum Norðurlöndunum og reyndist það danska hlutskarpast í samkeppninni. Verðlaum voru veitt á Norrænni ráðstefnu sem haldin var á Hótel Hilton í Reykjavík í janúarlok sl. þó svo verkefni Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra hafi ekki fengið gullið í þetta sinnið þá fékk verkefnið sérstaka viðurkenningu, eins og sjá má á viðurkenningarskjali hér að ofan.
Tilgangur eftirlitsverkefnisins var einkum þríþættur: Í fyrsta lagi að koma á móts við sjónarmið um bætta upplýsingagjöf til neytenda. Í öðru lagi að skerpa á vinnubrögðum Heilbrigðiseftirlitsins til að gera eftirlitið markvissara og í þriðja lagi að ná fram breytingum á starfsháttum veitingastaðanna. Til að ná fram breytingum á minniháttar frávikum í starfsháttum veitingahúsa s.s. á ófullnægjandi hlífðarfatnaði starfsfólks, þá geta þvingunarúrræði reynst þunglamaleg með sínum lögbundnu frestum og andmælarétti. Með eftirlitsverkefninu og opinberri myndbirtingu var ætlunin að skapa þrýsting á þá þætti sem betur geta farið í starfsháttum veitingahúsa, en teljast ekki alvarleg frávik.
Framkvæmd:Þeim veitingamönnum sem selja veitingar allt árið, var sent bréf, þar sem farið var yfir framkvæmd verkefnisins. Könnunin náði eingöngu til veitingahúsa og skyndibitstaða en ekki til mötuneyta stofnana, fyrirtækja og skóla. Veitingahús voru ekki skyldug til þess að taka þátt í verkefninu, í ljósi framangreindra ákvæða í lögum sem vegast á um upplýsingagjöf til almennings. Ekkert veitingahús á Norðurlandi vestra skoraðist undan að taka þátt í eftirlitsverkefninu.
Það var mat okkar eftirlitsins að það hafi skilað tilætluðum árangri. Í einstaka tilfellum hafa áhrif eftirlitsverkefnisins til bættra starfshátta dalað eftir því sem liðið hefur verið árið 2014. Til þess að skerpa á áhrifum könnunarinnar eru uppi ráðagerðir að endurtaka hana á næsta ári þ.e. 2015 og verður fróðlegt að sjá breytingar á milli ára. Hugmyndin er að endurtaka könnunina með sama hætti næsta vor til þess að skerpa á starfsháttum veitingahúsa áður en straumur ferðamanna verður hvað mestur um hásumarið.
Góður rómur var gerður að könnuninni í héraðsmiðlum og almenn ánægja var hjá veitingamönnum með könnunina. Hér má sjá glræur frá kynningunni á Norrænu eftirlitsráðstefnunni.