Umsögn Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra um drög að stöðuskýrslu fyrir vatnasvæði Íslands

Sauðárkróki, 6. mars 2013

Umhverfisstofnun

Heilbrigðiseftirlit Norðurlands vestra telur talsverðan ávinning felast í skýrsludrögum Umhverfisstofnunar um stöðu vatnasvæða Íslands, þó svo að gerðar séu veigamiklar athugasemdir við drögin.  Drögin eru ágæt samantekt og þar af leiðandi  grundvöllur fyrir  frekari  vinnu að stöðumati og úrbótum í málaflokknum.

Athugasemdir við Drög að stöðuskýrslu fyrir vatnasvæði Íslands:

1)      Skipting landsins í  „vatnsumdæmin 4“ í nýju stjórnkerfi vatnamála,  er að mati undirritaðs ekki til þess fallin að gera vinnuna skilvirkari við þau markmið að greina mengunarálag og stuðla bættu ástandi vatnshlota.  Erfitt er að sjá nokkur rök fyrir því að Snæfellingar, á sunnanverðu Snæfellsnesi, eigi að starfa að framþróun málaflokksins með Reykvíkingum, á meðan sveitungar þeirra á norðanverðu Snæfellsnesi eiga að fara í sömu vinnu með Ísfirðingum og Króksurum. Nærtækara væri að vinna þessa vinnu á grundvelli þeirrar skiptingar sem heilbrigðisnefndir sveitarfélaga starfa eftir, en þær fara að stórum hluta með eftirlit með mengun og vatnsgæðum í héraði.  Ef svæðin hefðu þótt of mörg hefði mátt slá nokkrum heilbrigðisnefndum saman í skilgreind vatnasvæði t.d. vatnasvæði Höfuðborgar og Suðurlands.

2)      Álagsgreiningin, sem er að finna í skýrslunni, er unninn úr fjölmörgum athugunum sem hafa verið unnar með ólík markmið í huga og sömuleiðis með ólíkum aðferðum. Stundum er um beinar mælingar í viðtaka að ræða og stundum er um framreikning að ræða á hvað sambærileg starfsemi mengar mikið.
Ef skoðaðar eru niðurstöður um mengunarálag þriggja lítilla bæjarfélaga á Norðurlandi vestra; Blönduósi, Sauðárkróki og Siglufirði,  þá er áætlað að frá umræddum bæjarfélögum berist liðlega 52 þúsund persónueiningar frá atvinnnustarfsemi á þeim svæðum, en frá Höfuðborginni er áætlað að öll atvinnustarfsemi s.s. iðnaður, fiskvinnsla, og ferðamennska skili innan við 200 þúsund persónueiningum.   Þessar tölur gefa til að kynna að rétt sé að staldra við áreiðanleika gagnanna og túlkun þeirra.

3)  Ómögulegt er að meta út frá þeim athugunum sem liggja fyrir hvernig eigi að flokka  gæði strandsjávar út frá  lífrænni mengun.  Það er að viðkomandi svæði teljist vera einhverjum eftirtalinna þriggja flokka; undir álagi í flokki I, eða í flokki II mögulega í hættu, –  eða þá í flokki III að vera ekki undir álagi.

Það markast fyrst og fremst af því að ekki er búið að setja nein umhverfismörk fyrir næringarefni og lífræn efni í vatni í strandsjó, en þau mörk sem er að finna í reglugerð 796/1999 um varnir gegn mengun vatns  eru sett fyrir ár og stöðuvötn.  Sömuleiðis er ekki  heldur búið að að setja upp vistfræðilegt flokkunarkerfi  sbr. 16. gr.  reglugerð 535/2011 um flokkun vatnshlota, eiginleika þeirra, álagsgreiningu og vöktun.

Að lokum skal tekið fram að Heilbrigðiseftirlit  Norðurlands vestra  hefur nýverið gert athuganir á mengun strandsjávar við; Ólafsfjörð, Siglufjörð og Sauðárkrók og eru niðurstöður  rannsóknanna að finna á heimasíðu eftirlitsins www.hnv.is. Fyrirhugað er að gera ennfrekari mælingar á næstu vikum á viðtaka skólps á Blönduósi og Siglufirði sem nýtist vonandi við gerð endanlegrar  stöðuskýrslu fyrir vatnasvæðið Ísland.

Virðingarfyllst

_________________________

Sigurjón Þórðarson

heilbrigðisfulltrúi