Mengunareftirlit með flutningum á olíu á Íslandi er ekki til staðar

Þann 25. júní 2020 var kveðinn upp úrskurður í úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í deilu Olíudreifingar hf. við Heilbrigðisnefnd Norðurlands vestra vegna áminningar sem Heilbrigðisnefndin veitti félaginu þann 21. janúar sl.Áminningin var veitt Olíudreifingu til þess að knýja félagið til þess að veita upplýsingar um magn olíu sem flutt var annars vegar um Öxnadalsheiði í september 2019 og til Skagafjarðar og Húnavatnssýslna og hins vegar um magn olíu sem flutt var til Fjallabyggðar frá Akureyri, í sama mánuði. Olíudreifing hafði áður hafnað að veita umbeðnar upplýsingar. Niðurstaða úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál var að Heilbrigðisnefndin hefði ekki heimildir til þess að krefjast upplýsinganna og því síður heimild til að áminna Olídreifingu í kjölfarið, þar sem dreifing olíu var ekki starfsleyfisskyld með skýrum hætti, þó svo starfsemin væri eftirlitsskyld sbr. 5. gr. relgugerðar 884/2017. Í umfjöllun úrskurðarnefndarinnar um heimildir heilbrigðiseftirlitsins kemur fram að þær séu einkum fólgnar í að fræða, leiðbeina og veita upplýsingar og má ráða að nefndin telji þær skyldur sem reglugerðin leggur á herðar eftirlitsaðila, vart til eiginlegs opinbers eftirlits.

Hafa ber í huga að óskin um upplýsingar var ekki sett fram út í loftið, þar sem flutingar með olíu á vegum hafa aukist mjög og á sl. árum hafa orðið mengunarslys í Skagafirði, þar sem tugþúsundir lítrar af olíu hafa runnið út í umhverfið, eftir að oliubílar hafa oltið.
Úrskurðurinn opinberar að eftirlitsstofnanir með umhverfismálum hafa afar takmarkaðar heimildir til þess að krefjast lágmarksupplýsinga um flutning hættulegra mengunarefna, sem geta valdið mikilli mengun á lífríki Íslands og raskað lífsskilyrðum fólks.

Í tengslum við mál á Hofsósi, þar sem láku út í umhverfið mörgþúsund lítrar af bensíni, kom fram að nýlegar breytingar á reglugerð um varnir gegn olíumengun frá starfsemi í landi, heimilr að í notkun séu einfaldir niðurgrafnir járntankar, sem eru orðnir margra áratuga gamlir.

Í framhaldi af þessum tveimur málum er vert að velta upp þeirri spurningu, hvort að núverandi heimildir yfirvalda til að afla upplýsinga og kröfur sem gerðar eru til mengunarvarna bensínstöðva, eigi sér einhverja hliðstæðu á öðrum Norðurlöndum?

Af úrskurðinum má draga þann lærdóm að lítið sem ekkert raunverulegt eftirlit sé með dreifingu olíu á Íslandi og skýra þurfi nánar heimildir heilbrigðisnefnda til afskipta af bryggjugeymum og oliugeymum sem ekki eru tengdir starfsleyfisskyldri starfsemi sbr. 5. gr. reglugerðar 884/2017. Ekki verður ráðið annað af úrskurðinum en að heimildir heilbrigðisefnda til þess að krefjast úrbóta á umræddum búnaði, sé vart til staðar.